Sálfélagslegar áhættur og streita á vinnustöðum

Image
Psychosocial risks and stress. Several workers wearing telephone headsets

Sálfélagslegar áhættur og vinnutengd streita eru á meðal þeirra vandamála, sem hvað erfiðust eru, þegar kemur að vinnuvernd. Þær hafa mikil áhrif á heilbrigði einstaklingsins, fyrirtækja og innlend hagkerfi.

Um helmingur evrópskra launþega telur streitu algenga á vinnustað sínum en hún veldur um helmingi allra tapaðra vinnudaga.  Eins og mörg önnur mál er varða geðheilbrigði, er streita oft misskilin eða brennimerkt.  Þegar litið er á hana, hins vegar, sem skipulagsmál frekar en sök einstaklingsins eru sálfélagslegar áhættur og streita alveg eins viðráðanlegar og margar aðrar áhættur á sviði heilbrigðis- og öryggismála á vinnustaðnum.

Hvað eru sálfélagslegar áhættur og streita?

Sálfélagslegar áhættur verða til vegna lélegrar vinnuhönnunar, skipulags og stjórnunar eða lélegs félagslegs samhengis á vinnustaðnum. Þær kunna að leiða til neikvæðra sálfélagslegra, líkamlegra og félagslegra útkomna eins og vinnutengdrar streitu, kulnunar í starfi eða þunglyndis. Nokkur dæmi um vinnuaðstæður sem leiða til sálfélagslegra áhættna eru:

  • of mikið vinnuálag;
  • stríðandi kröfur og skortur og skýrum hlutverkum;
  • skortur á þátttöku í ákvarðanatöku, sem varðar starfsmanninn, og skortur á áhrifum á hvernig vinnan er ástunduð;
  • illa undirbúnar breytingar í fyrirtækinu, óöryggi um starf;
  • óskilvirk samskipti, skortur á aðstoð frá stjórnendum eða samstarfsmönnum;
  • sálræn og kynferðisleg áreitni, ofbeldi af hendi þriðja aðila.

Þegar starfskröfurnar eru hafðar í huga, er mikilvægt að rugla sálfélagslegum áhættum, líkt og of miklu vinnuálagi ekki við aðstæður þar sem, þrátt fyrir að vera örvandi og stundum erfiðar, vinnuumhverfið er stuðningsríkt, starfsmenn vel þjálfaðir og hvattir til þess að standa sig sem best. Gott sálfélagslegt vinnuumhverfi bætir góða frammistöðu og persónulegan þroska svo og andlega og líkamlega vellíðan starfsmannsins.

Launþegar finna til streitu þegar kröfur starfs þeirra eru óhóflegar og meiri en geta þeirra til að standa undir þeim. Auk andlegra heilbrigðisvandamála geta launþegar, sem þjást af langvarandi streitu, þróað með sér alvarleg líkamleg heilsufarsvandamál eins og hjarta- og æðasjúkdóma eða stoðkerfisvandamál.

Fyrir fyrirtækið eru neikvæðu áhrifin meðal annars almenn léleg rekstrarafkoma, auknar fjarvistir, ofmæting (starfsmenn koma til vinnu þegar þeir eru veikir og geta ekki starfað með skilvirkum hætti) og aukin tíðni slysa og áverka. Fjarvistir eiga það til að vera lengri en þær sem stafa af öðrum völdum og vinnutengd streita getur haft áhrif á aukna tíðni snemmbúinnar lífeyristöku. Matið á kostnaði fyrirtækja og samfélagsins er töluvert og hleypur á milljörðum evra á landsvísu.

Hversu alvarlegt er vandamálið?

Evrópsk skoðanakönnun á vegum EU-OSHA sýnir að um helmingur launþega telur að vinnutengd streita sé algeng á vinnustað sínum. Meðal algengustu orsaka, sem nefndar eru, fyrir vinnutengdri streitu er endurskipulagning í störfum eða starfsóöryggi, langur vinnutími eða óhóflegt vinnuálag og áreitni og ofbeldi á vinnustaðnum. EU-OSHA býður upp á upplýsingar um nýjustu gögn og rannsóknarniðurstöður í tengslum við tíðni og öryggis- og heilbrigðisáhrif vinnutengdrar streitu og sálfélagslegra áhætta.

Talið er að fyrirbyggjandi, heildræn og kerfisbundin nálgun sé besta leiðin til þess að hafa stjórn á sálfélagslegum áhættum. Evrópska fyrirtækjakönnunin um nýjar og aðsteðjandi áhættur (ESENER) á vegum EU-OSHA skoðar hvernig sálfélagslegar áhættur eru skynjaðar og stjórnað í evrópskum fyrirtækjum auk þess að nefna helstu hvata, hindranir og þarfir á aðstoð. Könnunin sýnir að talið sé að sálfélagslegar áhættur séu erfiðari viðfangs og erfiðari í stjórnun en hefðbundnar vinnuverndaráhættur. Þörf er á vitundaraukningu og einföldum, hagnýtum tólum til þess að auðvelda mönnum að takast á við vinnutengda streitu, ofbeldi og áreitni.

Hvað má gera til að koma í veg fyrir og stjórna sálfélagslegum áhættum?

Með réttri nálgun má koma í veg fyrir sálfélagslegar áhættur og vinnutengda streitu og hafa stjórn á þeim með árangursríkum hætti, skiptir stærð eða gerð fyrirtækisins þá ekki máli í þeim efnum. Taka má á þeim með sama rökrétta og kerfisbundna hættinum og þegar um er að ræða aðrar heilbrigðis- og öryggishættur á vinnustaðnum.

Streitustjórnun er ekki bara siðferðisleg skylda og góð fjárfesting fyrir atvinnurekendur heldur er hún áskilin í lögum eins og kemur fram í rammatilskipuninni 89/391/EBE og studd af rammasamningum aðila vinnumarkaðarins um vinnutengda streitu og áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Auk þess viðurkennir Evrópusamningurinn fyrir andlegt heilbrigði og vellíðan hinar breyttu kröfur og þann aukna þrýsting, sem finna má á vinnustöðum, og hvetur atvinnurekendur og starfsmenn til þess að innleiða fleiri valfrjálsar ráðstafanir til þess að efla andlega vellíðan.

Þrátt fyrir að atvinnurekendum beri lagaleg skylda til þess að tryggja að áhættur á vinnustaðnum séu metnar með fullnægjandi hætti og að þeim sé stjórnað er mjög mikilvægt að hafa starfsmenn einnig með í ráðum. Starfsmenn og fulltrúar þeirra hafa bestan skilning á þeim vandamálum, sem geta komið upp, á vinnustað þeirra. Þátttaka þeirra mun tryggja að aðgerðirnar, sem ráðist er í, séu bæði viðeigandi og skilvirkar.

EU-OSHA býður upp á hafsjó af upplýsingum og hagnýta aðstoð við að auðkenna, koma í veg fyrir og stjórna sálfélagslegum áhættum og vinnutengdri streitu.