Latest update: 13/12/2021

Rammatilskipunin um vinnuvernd

Evrópska rammatilskipunin um vinnuvernd (tilskipun 89/391 EBE) sem samþykkt var árið 1989 markaði mikilsháttar þáttaskil á sviði vinnuverndarmála. Hún tryggir lágmarkskröfur fyrir öryggi og heilbrigði í Evrópu á sama tíma og aðildarríkin hafa heimild til þess að viðhalda eða koma á strangari kröfum.

Tilskipunin 89/391 - vinnuvernd „rammatilskipun“
frá 12. júní 1989 um lögleiðingu ráðstafana er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum - „rammatilskipunin“.

Árið 1989 leiddu nokkur ákvæði rammatilskipunarinnar til töluverðar nýbreytni, þar á meðal eftirfarandi:

  • Kveðið var á um hugtakið „vinnuumhverfi“ í samræmi við sáttmála Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 155 og er skilgreining þess nútímaleg nálgun þar sem höfð er hliðsjón af tæknilegu öryggi ásamt almennum forvörnum gegn vanheilsu.
  • Tilskipunin miðar að því að koma á jöfnu stigi öryggis og heilbrigðis öllum launþegum til góða (eina undantekningin eru starfsmenn á heimilum og ákveðnir starfsmenn hjá hinu opinbera og hernum).
  • Tilskipunin krefur atvinnurekendur um að grípa til viðeigandi fyrirbyggjandi ráðstafana til þess að gera vinnuna öruggari og heilbrigðari.
  • Eitt helsta atriðið, sem tilskipunin kynnti til sögunnar, var meginreglan um áhættumat auk þess að skilgreina helstu hluta þess (t.d. hættuauðkenningu, starfsmannaþátttöku, innleiðingu á fullnægjandi ráðstöfunum þar sem forgangur er að útrýma áhættum við upptökustað, skjalfestingu og reglulegt endurmat á hættum á vinnustaðnum).
  • Þessi nýja skylda um að koma á fyrirbyggjandi ráðstöfunum leggur einnig með skilyrðislausum hætti áherslu á mikilvægi öryggis- og heilbrigðisstjórnunar á nýju sniði sem hluta af almennu verklagi við stjórnun.

Lögleiða þurfti rammatilskipunina í landslög fyrir lok árs 1992. Afleiðingar lögleiðingarinnar á lagakerfi þjóðríkjanna voru mismunandi eftir aðildarríkjum. Í nokkrum aðildarríkjum hafði rammatilskipunin töluverð lögáhrif vegna ófullnægjandi innlendrar löggjafar á meðan í öðrum var ekki þörf á neinum stórkostlegum aðgerðum.

Árið 2004 sendi framkvæmdastjórn Evrópusambandsins frá sér orðsendingu (COM [2004] 62) um hagnýta innleiðingu á ákvæðum sömu tilskipana, þ.e. 89/391/ EBE (rammatilskipunin), 89/654 EBE (vinnustaðir), 89/655 EBE (vinnubúnaður), 89/656 EBE (persónulegur hlífðarbúnaður), 90/269 EBE (handvirk meðhöndlun á þyngd) og 90/270 EBE (búnaður á tölvuskjám)]. Orðsendingin tók fram að vísbendingar væru um jákvæð áhrif löggjafar Evrópusambandsins á innlenda vinnuverndarstaðla en hún samanstendur bæði af framkvæmdarlöggjöf og hagnýtri beitingu í fyrirtækjum og hjá stofnunum hins opinbera.

Almennt komst skýrslan að þeirri niðurstöðu að löggjöf Evrópusambandsins hefði lagt sitt af mörkunum til þess að koma á fyrirbyggjandi menningu í Evrópusambandinu ásamt því að hagræða og einfalda innlendu lagakerfin. Á sama tíma, hins vegar, undirstrikaði skýrslan ýmiss konar galla í beitingu löggjafarinnar sem komu í veg fyrir að hún næði fullri getu sinni. Hún upplýsti einnig um málshöfðanir vegna brota.