Stafræn væðing vinnustaða

© IStockphoto / ismagilov

Stafræn væðing er ört að breyta atvinnulífinu og krefst nýrra og uppfærðra vinnuverndarlausna. Rannsóknaráætlun EU-OSHA miðar að því að láta stefnugerðaraðilum, rannsóknaraðilum og vinnustöðum í té áreiðanlegar upplýsingar um hugsanleg áhrif starfrænar væðingar á vinnuvernd, þannig að þeir geti gripið til tímanlegra og skilvirkra aðgerða til að tryggja að starfsfólk búi við öryggi og heilbrigði.

Tilkoma tækni eins og gervigreindar (e. Artificial Intelligence - AI), stórra gagna, vélfæratækni, internetvæðingu búnaðar, reiknirita, stafrænna vinnuvettvanga og á sama tíma mikil fjölgun íbúa sem starfar í fjarvinnu, skapar tækifæri fyrir starfsmenn og vinnuveitendur en einnig nýjar áskoranir og áhættur fyrir vinnuvernd. Að takast á við áskoranir og áhættur og hámarka tækifærin fer eftir því hvort tæknin er notuð með viðeigandi hætti og hvernig henni er stjórnað og hvaða reglur gilda um hana í tengslum við félagslega, stjórnmálalega og efnahagslega þróun.

EU-OSHA stendur fyrir rannsóknarverkefni sem byggir á framsýnisrannsókn sinni um stafræna væðingu og vinnuverndarstarfi, og skoðar vinnuverndarsjónarmið (2020-2023) til að veita ítarlegar upplýsingar um stefnu, forvarnir og framkvæmd í tengslum við áskoranir og tækifæri stafrænnar væðingar í samhengi vinnuverndar.

Það leggur áherslu á eftirfarandi svið:

Háþróuð vélfæratækni og gervigreind

Kerfi sem byggja á gervigreind og háþróuð vélfæratækni eru að breyta því hvernig störf fyrir mannlegt vinnuafl eru hönnuð og framkvæmd. Slíkum kerfum sem eru annaðhvort raunlæg (til dæmis vélfæratækni) eða huglæg (til dæmis snjallforrit) er gert kleift að framkvæma aðgerðir – með vissu sjálfræði – til að framkvæma annað hvort líkamleg eða vitsmunaleg verkefni og ná sérstökum markmiðum.

Þetta hefur verulega jákvæð áhrif, ekki aðeins hvað varðar framleiðni fyrirtækja heldur einnig fyrir vinnuverndarstarf. Til dæmis er hægt að fjarlægja starfsmenn úr hættulegu umhverfi og verkefnum og hagræða vinnuálagið. Slík kerfi geta framkvæmt áhættusöm eða lýjandi endurtekin verkefni, sem tengd eru hefðbundinni og vaxandi öryggisáhættu, en slíkt gerir starfsmönnum kleift að sjá um áhættuminni og jafnvel skapandi verkefni sem getur leit til aukinna afkasta.

Engu að síður myndast ýmsar áskoranir fyrir vinnuvernd í tengslum við notkun þessara gervigreindarkerfa á vinnustað, sem eiga rætur sínar í samskiptum slíkra kerfa við starfsmenn, eins og til dæmis óvæntir árekstrar, oftraust og svo framvegis, en einnig hættur tengdar sálfélagslegum og skipulagslegum þáttum, og þarf að taka á þeim þegar þær koma upp.

Rannsóknir á þessu sviði bera kennsl á og fjalla um tækifærin sem og áskoranirnar og áhætturnar sem fylgja notkun háþróaðrar vélfæratækni og gervigreindarkerfa til að auka sjálfvirkni verkefna, bæði líkamlegra og vitsmunalegra, auk þess sem þær varpa ljósi á fjölda viðbótarvandamála, þar á meðal samskipti manna og véla sem og traust til tækninnar.

Sjá helstu skýrslur og tengd rit

Starfsmannastjórnun með gervigreind

Gervigreind og stafræn tækni hafa ýtt undir notkun nýrra aðferða við stjórnun starfsmanna. Ólíkt fyrri stjórnunarformum sem treysta að miklu leyti á mannlega stjórnendur, vísar starfsmannastjórnun sem notar gervigreind til nýrra stjórnunarkerfa og verkfæra sem safna rauntímagögnum um hegðun starfsmanna frá ýmsum aðilum í þeim tilgangi að upplýsa stjórnendur og styðja sjálfvirkar eða hálfsjálfvirkar ákvarðanir sem byggja á reikniritum eða fullkomnari gerðum gervigreindar.

Rannsóknir á þessu sviði bera kennsl á og fjalla um tækifærin sem þessi nýju kerfi skapa fyrir gervigreindarstjórnun, þar sem þau geta stutt við ákvarðanir sem miða að því að bæta vinnuvernd á vinnustaðnum þegar þau eru byggð og innleidd á gagnsæjan hátt og starfsmenn eru upplýstir og haft er samráð við þá.

Rannsóknin kortleggur og fjallar einnig um lagalegar áskoranir, reglugerðir, siðferðislegar hliðar og áhættur tengdar persónuvernd, svo og áhyggjur af vinnuvernd, sérstaklega hvað varðar sálfélagslega áhættuþætti sem þessar nýju gerðir eftirlits og stjórnun starfsmanna gefa tilefni til.

Sjá helstu skýrslur og tengd rit

Stafræn netvangsvinna

Stafræn netvangsvinna er öll launuð vinna sem veitt er í gegnum netvettvang eða miðlað af markaðstorgi á netinu sem byggir á stafrænni tækni sem auðveldar samsvörun eftirspurnar og framboðs vinnuafls. Vinnan sem veitt er í gegnum netvangana getur verið mjög fjölbreytt: hún getur falið í sér flókin eða einföld verkefni, vitsmunaleg eða handvirk verkefni og störfin geta bæði verið unnin algjörlega á netinu á stafrænan hátt, eða á staðnum þar sem starfsmenn sinna verkum í eigin persónu.

Stafræn netvangsvinna skapar störf á svæðum þar sem slík atvinnutækifæri skortir eða miðlar vinnu til jaðarsettra hópa starfsmanna, en þetta hefur einnig í för með sér ýmsar áskoranir og áhættur fyrir vinnuvernd starfsmanna sem þarf að bregðast við.

Rannsóknarverkefni á sviði netvangsvinnu miða að:

  • greina og ræða tækifæri, áskoranir og áhættur af netvangsvinnu;
  • kortleggja mismunandi tegundir netvangsvinnu ásamt tengdri áhættu og tækifærum;
  • finna dæmi um stefnu til að koma í veg fyrir vinnuverndaráhættu fyrir starfsmenn netvanga; og 
  • styðja við þróun hagnýtra tækja til forvarna í vinnuverndarstarfi.

Sjá helstu skýrslur og tengd rit

Snjöll stafræn kerfi

Ný vöktunarkerfi fyrir öryggi og heilsu starfsmanna, svo sem snjallsímaforrit, hlífðarbúnað, farstýrðar vöktunarmyndavélar eða drónar, snjallgleraugu, UT-tengd forrit og snjallar persónuhlífar, eru þróuð með það að markmiði að fylgjast með vinnuvernd og bæta öryggi starfsmanna. Til dæmis er hægt að nota þau með það að markmiði að fylgjast með lífeðlisfræðilegu og andlegu ástandi starfsmanna, svo sem streitu, þreytu, árvekni og hjartsláttartíðni, auk líkamsstöðu og líkamshreyfinga. Eins er hægt að fylgjast með staðsetningu starfsmanna á hættulegum svæðum, leiðbeina starfsmönnum eða gera stjórnendum starfsmanna viðvart þegar hætta skapast eða jafnvel kalla á neyðarþjónustu. Þótt kerfin skapi tækifæri fyrir vinnuvernd fylgja þeim einnig áhyggjuþættir, til dæmis tengdir persónuvernd gagna, eignarhaldsmálum, virkni og stöðlun.

Í þessari rannsókn metum við afleiðingar þeirra með því að greina tegundir nýrra vöktunarkerfa (tækni), notkun þeirra (til dæmis til að styðja vinnuverndarreglur, skilvirka framfylgni eða þjálfun) og vinnuverndaráskoranir ásamt tækifærum sem tengjast innleiðingu kerfana og hönnun þeirra. Einnig fylgir yfirlit yfir úrræði á vinnustað (til dæmis starfsreglur, stefnur á fyrirtækisstigi, ráðleggingar, leiðbeiningar, samskiptareglur og þjálfun).

Rannsóknin samanstendur af skrifstofukönnunum, viðtölum og vettvangsrannsóknum. Árið 2023 verður skipulögð stórvægileg vinnustofa til að styðja við niðurstöðurnar.

Sjá helstu skýrslur og tengd rit

Fjarvinna

Fjarvinna er hvers kyns vinnufyrirkomulag sem felur í sér notkun stafrænnar tækni til að vinna heiman frá sér eða almennt fjarri athafnasvæði vinnuveitanda eða á föstum stað. Fjarvinna hefur í för með sér tækifæri, áskoranir og áhættur sem vert er að hafa í huga þegar hugsað er um framtíðarþróun, þar á meðal áhrif á kynja- og fjölbreytileikavídd vinnuaflsins, og mismunandi áhrif þvert á geira og starfsgreinar, auk nýrrar og vaxandi tækni, þar á meðal stafrænt viðmót og sýndarveruleika, sem gert er ráð fyrir að muni gera fjarvinnu aðgengilega fyrir fleiri fyrirtæki og starfsmenn.

Fjöldi verkefna á þessu sviði, sem einnig byggja á fyrri rannsóknum EU-OSHA, kortleggja tækifærin, áskoranirnar og áhættuna af fjarvinnu og miða að því að auka vitund fjarstarfsmanna, vinnuveitenda og annarra tengdra hagsmunaaðila.

Sjá helstu skýrslur og tengd rit

 

Herferð EU-OSHA fyrir heilbrigða vinnustaði Farsæl framtíð í vinnuvernd, sem stendur frá 2023 til 2025, eykur vitund um stafræna væðingu og vinnuverndarstarf og veitir hagnýt úrræði.