Könnun EU-OSHA varðandi útsetningu starfsmanna fyrir áhættuþáttum krabbameins í Evrópu skoðar hvernig evrópskir starfsmenn verða fyrir ýmsum áhættuþáttum krabbameins. Þúsundir starfsmanna í sex löndum eru beðnir um að svara spurningum sem snúa að daglegum verkefnum og sem eru sniðin að núverandi starfi þeirra.
Þar sem áætlað er að krabbamein sé valdur á 53% allra dauðsfalla í starfi innan ESB og öðrum þróuðum ríkjum, eru áreiðanlegar upplýsingar um áhættuþætti krabbameins á vinnustað bæði nauðsynlegar fyrir öryggi og heilsu starfsmanna og eins mikilvægar fyrir afkastamikið og sjálfbært hagkerfi.
EU-OSHA er að framkvæma Könnun á útsetningu starfsmanna fyrir áhættuþáttum krabbameins í Evrópu til að greina betur áhættuþætti sem eru ábyrgir fyrir flestum váhrifsaðstæðum. Í könnuninni er einnig horft til algengustu váhrifsaðstæða og fjölda og einkenni starfsmanna sem eru útsettir fyrir margvíslegum krabbameinsáhættuþáttum, þar með talið asbest, bensen, króm, díselútblástur, nikkel, kísil ryk, UV geislun, viðarryk og fleira. Markmiðið með könnuninni er að betrumbæta vitundarherferðir og forvarnaraðgerðir, og stuðla að gagnreyndri stefnumótun.
Í könnuninni er einnig leitast við að veita upplýsingar sem gætu stuðlað að því að uppfæra löggjöf ESB, þar sem við á, til að bæta vernd gegn hættulegum efnum og berjast gegn krabbameini í starfi, einkum að því er varðar undirbúning hugsanlegra tillagna vegna framtíðarbreytinga tilskipunar um krabbameinsvaldandi, stökkbreytandi og æxlunareitruð efni.
Að auki er gert ráð fyrir að þessi könnun stuðli að vinnuverndaraðgerðum vegna Áætlun Evrópu um að sigrast á krabbameini og styðji við eitt af lykilmarkmiðum Stefnuramma ESB um heilsu og öryggi á vinnustöðum 2021-2027 um að bæta forvarnir gegn vinnutengdum sjúkdómum, og sérstaklega gegn krabbameini.
Lesa verkyfirlit könnunarinnar
Könnunaráfangar
2017
Hagkvæmnisathugun á könnun til að leggja mat á útsetningu launþega fyrir krabbameinsvöldum, sem byggir á ástralskri könnun á notkun nýstárlegra verkfæra til að leggja mat á útsetningu á vinnustöðum (Occupational Integrated Database Exposure Assessment System, OccIDEAS), var gerð.
2020
Undirbúningsvinna til að meta umfangið í löndunum þar sem könnunin verður fyrst gerð, ásamt því að hefja fyrstu skref til undirbúnings aðferðafræðinnar og aðlögunar ástralska líkansins að evrópsku samhengi, er hafin þar sem sama aðferðarfræði verður notuð og í áströlsku könnuninni (OccIDEAS).
2021 og 2022
Könnunin hefur verið þróuð, aðlöguð og þýdd. Frumpróf var gert vorið 2022. Könnunin er á vettvangi frá september 2022 til janúar 2023 í sex aðildarríkjum ESB: Finnland, Frakkland, Þýskaland, Ungverjaland, Írland og Spánn. Þjálfaðir spyrlar munu hringja í starfsmenn í farsímana þeirra og fá þá til að svara næstum 25.000 viðtölum í heildina.
2023 og 2024
Áætlað er að birta fyrstu niðurstöður í lok árs 2023. EU-OSHA mun einnig gefa út skýrslu sem lýsir nýstárlegri aðferðafræði. Niðurstöður könnunarinnar verða bættar við aukagreiningar sem fela í sér ítarlegar rannsóknir á tilteknum viðfangsefnum. Að loknu mati verða teknar ákvarðanir um að víkka könnunina út til fleiri landa og að bæta við áhættuþáttum.