Fréttatilkynningar
FYRIR TAFARLAUSA BIRTINGU - 08/05/2020 - 01:45

ESENER 2019 leiðir í ljós helstu áhyggjur evrópskra vinnustaða – stoðkerfisvandamál og sálfélagslega áhættu

Vinnuverndarstofnun Evrópu (EU-OSHA) birtir helstu niðurstöður fyrirtækjakönnunar Evrópu um nýjar og aðsteðjandi hættur (ESENER) í aðdraganda Evrópudagsins. Niðurstöðurnar veita uppfærða mynd af því hvernig vinnustaðir í Evrópu standa að stjórnun á vinnuverndarhættum. Stefnuágrip kynnir helstu niðurstöður könnunarinnar og varpar ljósi á helstu áhættuþætti, sem vinnustaðir hafa tilkynnt um, aðsteðjandi áhættu og þróun sem veldur áhyggjum.

Vinnuvernd er þó mjög mikilvæg á þessum erfiðu tímum og því meiri athygli sem fyrirtæki veita henni því auðveldara verður það fyrir þau að ná sér eftir áhrif heimsfaraldursins.

Nicolas Schmit, framkvæmdastjóri ESB fyrir atvinnumál og félagsleg réttindi sagði í ummælum um könnunina: Verndun og efling vinnuafls, fyrirtækja og samfélags alls, sem og að tryggja öryggi og heilsu manna hefur orðið enn mikilvægari á undanförnum mánuðum. Það er enginn vafi á því að áhyggjur sem fram komu í þessari rannsókn hafa versnað vegna Covid19 ástandsins. Við verðum að efla viðleitni okkar til að takast á við vandamál sem tengjast geðheilsu starfsmanna og takast á við áskoranir sem verða af stafrænni vinnu í ljósi mikillar aukningar á fjarvinnslu að undanförnu. Stefnumótun varðandi vinnuverndarhættur (e. occupational safety and health - OSH) mun í framtíðinni veita tækifæri til að taka á þessum málum.

Framkvæmdastjóri EU-OSHA, dr, Christa Sedlatschek, undirstrikar að „öll fyrirtæki, óháð stærð standi frammi fyrir alvarlegum efnahagserfiðleikum í kórónaveirukreppunni. En vinnuvernd er þó mjög mikilvæg á þessum erfiðu tímum og því meiri athygli sem fyrirtæki veita henni því auðveldara verður það fyrir þau að ná sér eftir áhrif heimsfaraldursins. ESENER er dýrmætt úrræði sem stefnumótendur og vinnustaðir geta notfært sér til að tryggja skilvirkar og gagnreyndar forvarnir.“

Niðurstöðurnar leiða í ljós að stoðkerfisvandamál og sálfélagsleg áhætta eru algengustu vandamálin á evrópskum vinnustöðum. Endurteknar hreyfingar með höndum eða örmum (tilkynnt um af 65 % vinnustaða í ESB27_2020), langvarandi setur (61 %) – nýtt atriði í könnuninni – og erfiðir viðskiptavinir, sjúklingar, nemendur, o.s.frv. (59 %) eru þrír helstu áhættuþættirnir sem skýrt var frá.

Könnunin skoðar líka hvernig fyrirtæki taka á þessari áhættu og leiðir nokkur atriði í ljós sem valda áhyggjum . Til dæmis að þrátt fyrir hátt hlutfall vinnustaða hafi skýrt frá stoðkerfisvandamálum hefur orðið örlítil fækkun á fjölda vinnustaða frá árinu 2014 sem grípur til ráðstafana til að koma í veg fyrir þau. Auk þess segjast aðeins 29 % fyrirtækja að þau myndu koma í veg fyrir að starfsmenn ynnu mjög langa vinnudaga til að hafa stjórn á sálfélagslegri áhættu.

Sum fyrirtæki skýrðu frá því að engir áhættuþættir væru til staðar hjá þeim. Það á einkum við um lítil fyrirtæki – því smærra sem fyrirtækið er því líklegra er það til að skýra frá engum áhættuþáttum, einkum sálfélagslegum áhættuþáttum, en það undirstrikar alvarlegan skort á vitund um þessa gerð af áhættu. Tregða til að tala opinskátt um vandamálin virðist vera helsta hindrunin fyrir því að tekið sé á þessari áhættu.

ESENER 2019 sýnir einnig frekari vinnuverndarvandamál sem valda áhyggjum. Yfir þriðjungur vinnustaða í Evrópusambandinu skýrir frá því að vera ekki með neins konar trúnaðarmann starfsmanna og yfir þriðjungur skýrir frá því að skortur á tíma eða starfsmönnum komi í veg fyrir stjórnun vinnuverndarmála. Á árunum 2014 til 2019 fækkaði hlutfalli fyrirtækja, sem skýrðu frá því að hafa fengið vinnueftirlit í heimsókn síðastliðin 3 ár, í nánast öllum löndum.

Stafræn þróun og áhrif hennar á öryggi og heilbrigði launþega er í fyrsta skipti hluti af ESENER 2019. Þar kemur meðal annars í ljós að aðeins 24 % vinnustaða, sem nota stafræna tækni, skýrðu frá því að hafa rætt möguleg áhrif slíkrar tækni á öryggi og heilbrigði starfsmanna sinna. Ef við beinum sjónum að mögulegum áhrifum, sem hafa verið rædd, var þörfin á símenntun til að viðhalda færni í fyrsta sæti (77 % vinnustaða í ESB27_2020), en þar á eftir langvarandi seta (65 %) og aukinn sveigjanleiki fyrir starfsmenn hvað varðar vinnustaði og vinnutíma (63 %).

Verkefni EU-OSHA á sviði stafrænnar tækni miða að því að tryggja að stefnumótandi aðilar og vinnustaðir búi yfir nauðsynlegum upplýsingum til að færa sér í nyt ávinninginn af tækniþróun en standa á saman tíma vörð um starfsmenn sína. Einnig verður lögð áhersla á stafræna tækni í herferð EU-OSHA Vinnuvernd er allra hagur 2023, en þá tekur stofnunin höndum saman með samstarfsaðilum sínum til að auka vitund um tækifæri og áhættu í tengslum við stafræna tækni.

Tenglar:

  • Lesa stefnuágripið til að fræðast um allar helstu niðurstöður ESENER 2019
  • Skoða gagnabirtingu ESENER til að skoða gögn frá 2009 og 2014 (niðurstöður frá 2019 eru væntanlegar)
Athugasemdir til ritstjóra: 
1.

Þriðja Fyrirtækjakönnun Evrópu um nýjar og aðsteðjandi áhættur (ESENER 2019) á vegum Vinnuverndarstofnunar Evrópu (EU-OSHA) safnaði svörum um vinnuverndarstjórnun og áhættu á vinnustöðum frá þeim sem hafa bestar upplýsingar um öryggi og heilbrigði í viðkomandi fyrirtækjum.

Vor/sumar 2019, 45.420 vinnustaðir með að minnsta kosti fimm manns í vinnu úr öllum atvinnugreinum og 33 löndum – ESB-27 og Íslandi, Norður-Makedóníu, Noregi, Serbíu, Sviss og Bretlandi – tóku þátt í könnuninni. Spurningalistinn var að mestu leiti sá sami og fyrir ESENER 2014 svo samanburður yrði mögulegur; en nýr hluti um stafræna tækni var kynntur til sögunnar.

Gögnum var aðallega safnað í gegnum símaviðtöl með aðstoð tölvu (CATI) en innlendum viðmiðunarsýnum var aukalega safnað í þremur löndum með fjárhagsstuðningi viðkomandi innlendra yfirvalda: Írlandi (+ 1 250), Noregi (+ 450) og Slóveníu (+ 300).

2.

Vinnuverndarstofnun Evrópu (EU-OSHA) leggur sitt af mörkunum við að gera Evrópu að öruggari, heilbrigðari og afkastameiri stað til að vinna á. Stofnunin rannsakar, þróar og dreifir áreiðanlegum, yfirveguðum og óhlutdrægum upplýsingum um öryggis- og heilbrigðismál og skipuleggur vitundarherferðir um alla Evrópu. Stofnunin, sem var sett á fót af Evrópusambandinu árið 1994 og er með höfuðstöðvar í Bilbaó á Spáni, færir saman fulltrúa framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, fulltrúa frá stjórnsýslu aðildarríkjanna, frá samtökum atvinnurekenda og launþega ásamt leiðandi sérfræðingum frá hverju af hinum aðildarríkjum ESB og annars staðar frá.

Nú geturðu fylgt okkur á Facebook, Twitter, LinkedIn, YouTube eða gerst áskrifandi að mánaðarlegu fréttabréfi okkar OSHmail. Þú getur líka skráð þig fyrir reglulegum fréttum og upplýsingum frá EU-OSHA í RSS-veitu okkar.

http://osha.europa.eu